Fjárhagsaðstoð

Um fjárhagsaðstoð í Garðabær gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt  í samræmi við 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 . Samkvæmt þeim er hverjum og einum skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.


Starfsfólk fjölskyldusviðs Garðabæjar sér um framkvæmd þjónustunnar. Litið er á fjárhagsaðstoðina sem samvinnuverkefni Garðabæjar og þess sem aðstoðarinnar nýtur þar sem leiðarljósið er hjálp til sjálfshjálpar.

Umsókn

Allir fjárráða einstaklingar sem eiga lögheimili í Garðabæ geta sótt um fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu og er alltaf tímabundið úrræði. 

Sótt er um fjárhagsaðstoð á sérstöku umsóknareyðublaði sem aðgengilegt er á þjónustugátt Garðabæjar.


Fjárhæð fjárhagsaðstoðar


Fjárhæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af skattskyldum tekjum umsækjanda eða hjóna og sambúðaraðila og koma allar skattskyldar tekjur til frádráttar við útreikning fjárhæðar. Fjárhæð fer eftir búsetuaðstæðum hverju sinni. Fjárhagsaðstoð er skattskyld.

Frá 1. janúar 2024 er framfærslugrunnur fjárhagsaðstoðar þessi:

  • 251.285 kr. fyrir einstakling sem býr í eigin húsnæði eða leggur fram staðfestingu á reglulegum leigugreiðslum
  • 402.056 kr. fyrir hjón og sambúðaraðila
  • 201.028 kr. fyrir einstakling sem býr með öðrum eða sýnir ekki fram á reglulegar leigugreiðslur
  • 125.642 kr. fyrir einstakling sem býr hjá foreldrum. Hafi viðkomandi einstaklingur forsjá barns er framfærslugrunnur hans þó 201.028 kr. 

Nauðsynleg gögn

Til að umsókn um fjárhagsaðstoð teljist gild þarf að skila eftirtöldum gögnum:

  • Skattframtali og staðgreiðsluyfirliti umsækjanda og maka/sambúðaraðila staðfestu af Ríkisskattstjóra.  Hér má nálgast leiðbeiningar um hvernig upplýsingarnar eru sóttar á vef RSK.
  • Upplýsingar um tekjur og aðrar greiðslur umsækjanda og maka/sambúðaraðila síðustu tveggja mánaða, þ.m.t. launaseðlar, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands og/eða Fæðingarorlofssjóði. 
  • Ef umsækjandi er vinnufær þarf að skila staðfestingu á að bótarétti úr atvinnuleysistryggingasjóði sé lokið og/eða staðfestingu skráningar í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun.
  • Ef umsækjandi er óvinnufær þarf að skila inn læknisvottorði.

Ráðgjöf


Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið fjarhagsadstod@gardabaer.is . Einnig er hægt að panta viðtalstíma hjá ráðgjafa vegna fjárhagsaðstoðar í þjónustuveri Garðabæjar í síma 525 8500.