Vífilsstaðir 100 ára

Aðalbyggingin á Vífilsstöðum var tekin í notkun árið 1910 og var þá eitt stærsta hús landsins. Spítalann teiknaði Rögnvaldur Ólafsson sem hefur verið kallaður fyrsti arkitekt landsins en hann var einnig byggingarmeistari þess.

Haldið var upp á 100 ára afmæli Vífilsstaða helgina 4. og 5. september 2010.

Sérstakt samfélag

Berklar voru afar skæður sjúkdómur hér á landi á fyrri hluta 20. aldarinnar og þá voru engin lyf til við þeim. Sjúkdómurinn lagðist þungt á ungt fólk og því var mikið af ungu fólki samankomið á Vífilsstöðum þar sem það var einangrað frá umheiminum jafnvel árum saman. Á Vífilsstöðum varð því til sérstakt samfélag þar sem gleði og sorg héldust í hendur.

Mörg framfaramál urðu að veruleika á Vífilsstöðum, t.d. i búskaparháttum þar sem brautryðjandastarf var unnið við ræktun og rekið myndarlegt kúabú. Sjúklingar stóðu einnig fyrir fjölbreyttu skemmti- og menningarlífi og á Vífilsstöðum var m.a. rekin fyrsta einkarekna útvarpsstöð landsins. Saga Vífilsstaða er því afar merkileg fyrir margra hluta sakir.

Fallegt umhverfi Vífilsstaða lék stórt hlutverk í því samfélagi sem þar myndaðist. Vinsælt var að fara út á bát á vatninu og þeir sjúklingar sem voru rólfærir gistu gjarnan í tjöldum í hraunbollum á sumrin og er enn hægt að sjá minjar um tjaldbúðir þar.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri ávarpaði gesti afmælishátíðarinnar og fór þá í stuttu máli yfir sögu Vífilsstaða. Ávarpið er hægt að nálgast hér ofar á síðunni.