30. mar. 2020

Gróður á lóðamörkum

Garðyrkjustjóri Garðabæjar gerir árlega úttekt á trjágróðri við lóðarmörk. Úttektin er gerð til að fyrirbyggja slys, tjón og ýmis óþægindi sem getur fylgt því að gróður vaxi út fyrir rými sitt.

  • Trjáklipping frá göngustíg
    Trjáklipping frá göngustíg

Garðyrkjustjóri Garðabæjar gerir árlega úttekt á trjágróðri við lóðarmörk. Úttektin er gerð til að fyrirbyggja slys, tjón og ýmis óþægindi sem getur fylgt því að gróður vaxi út fyrir rými sitt. Í þeim tilvikum sem það er raunin þarf að snyrta gróðurinn þannig að allir komist ferða sinna án hindrana. Mikilvægt er að gangstéttir þar sem snjóruðningstæki og vélsópar fara um sé greið. Á þeim tíma þegar trjágreinar slúta undan snjóþunga þarf að gera ráð fyrir 2,8 metra hæð undir trjágreinum á gangstígum þannig að snjóruðningstæki eigi greiða leið um stígana.

Undanfarið hefur starfsfólk garðyrkjudeildar farið og kannað trjágróður sem slútir yfir lóðarmörk og þrengir að gangstéttum og stígum. Á næstu dögum verða send út bréf til þeirra lóðarhafa sem fengu athugasemdir í úttekt garðyrkjustjóra. Þeir eru góðfúslega hvattir til að huga að gróðri á lóðarmörkum. Með bréfinu er úrtekt úr byggingarreglugerð og bæklingur um trjágróður, lóðarhöfum til fróðleiks, þar sem garðyrkjustjóri leggur áherslu á góða samvinnu við lóðarhafa og upplýsingagjöf.

Umhirða trjá- og runnagróðurs

Seinni hluti vetrar og byrjun vors hentar vel til klippinga, m.a. þar sem greinabygging lauffellandi trjáa- og runnaplantna er vel sýnileg. Trjá- og runnaklippingar eru flestum garðtrjám og runnum nauðsynlegar til að þau þrífist sem best. Greinar sem eru dauðar, sjúkar eða hafa óæskilega vaxtarstefnu þarf að fjarlægja. Einnig getur þurft að formklippa tré og runna í samræmi við ræktunartilgang og það rými sem til staðar er. Tré og runna við lóðarmörk, t.d. við gangstéttar þarf að klippa og forma þannig að gangandi komist leiðar sinnar og þjónustutæki geti ekið um hindrunarlaust.

Lesa má um trjá-og runnaklippingar hér á vef Garðabæjar.